Tölvunám á netinu

Inngangur

Ný aðalnámsskrá gerir ráð fyrir því að nemendur á Íslandi öðlist trausta þekkingu á tölvum og því sem kallað er upplýsingatækni. Kallar þetta á öflugar tæknilausnir í skólunum bæði fyrir nemendur, kennara sem og annað starfsfólk. Það þýðir að skólarnir þurfa að tækjavæðast að nýju og sér ekki fyrir endann á þeirri miklu tæknibyltingu sem rétt er að hefjast. Margir líkja þessari nýju bylgju við iðnbyltinguna á 18. og 19. öld. Aðalmunurinn er hins vegar sá að nú gerist allt svo ógnarhratt. Skólafólk þarf í mjög auknum mæli á endurmenntun að halda, því við sem lærðum á tækni gærdagsins þurfum að fylgja hinni vaxandi kynslóð í skólum landsins inn á nýjar víddir sem okkur eru jafnvel ókunnar. Þetta krefst mikillar orku og fjármuna sem sveitarfélög, ríki og einstaklingar þurfa að leggja til verksins. Ný störf eru að fæðast á hverjum degi í upplýsingasamfélaginu og segja fróðir menn að á Íslandi vanti a.m.k. 1000 manns til starfa á þessum vettvangi hvert einasta ár næstu árin. Í grunn- og framhaldsskólunum erum við að undirbúa nemendur undir framtíðina og til þess þurfum við að vera framsýn og ætíð tilbúin að gefa nýjum hugmyndum tækifæri á að blómstra.  

Forsendur

Hin öra tækniþróun opnar sífellt fleiri kosti í upplýsingatækni. Sífellt nýjar samskiptaleiðir eru að opnast og verkfærin sem notuð eru verða sífellt öflugri. Með tilkomu internetsins minnka fjarlægðir og upplýsingar flytjast á sekúndum yfir þveran hnöttinn. Kennsla og kennslubúnaður hlýtur að færast í áttina að þeim nýju víddum sem hafa opnast með fjarfundabúnaði, raddpósti og margmiðlun, ásamt nýjum aðferðum við smíði á gangvirku kennsluefni sem stutt er af veraldarvefnum. Einangrun kennara minnkar ef þeir tileinka sér þessa nýju tækni. Framlegð bæði þeirra og nemenda eykst með því að færa þreytandi handavinnu yfir í vélrænt form. Helsti gallinn er sá að nemendur hætta að nenna að skrifa með eigin rithönd því þeir verða sumir fljótari að pikka inn á takkaborðið hugsanir sínar, jafnvel fljótari að því en að tala mælt mál.

Nú geta nemendur , foreldrar og kennarar nálgast upplýsingar um fræðsluefni og meðtekið fræðslu af miðlægum gagnamiðli sama hvar þeir eru staddir í heiminum. Tölvan er alltaf tilbúin og hefur endalausa þolinmæði. Þannig getur vel heppnað kennsluefni orðið mjög námshvetjandi og ýtt undir nám nemenda þegar þeir eru í stuði til þess að meðtaka námið.  Með öðrum orðum, ef kennarar setja  innlagnir sínar og svör við þekktum vandamálum á netið með skipulögðum hætti, þá væri hægt að ná mun betri nýtingu út úr þeim tíma sem nemandinn notar til þess að þiggja nám. Þannig getur internetið stytt fjarlægðina milli spekinnar og nemandans. Einnig getur það hjálpað til í námsumhverfi þar sem verulegur getumunur er á einstaklingum. Þeir sem geta meira fara einfaldlega í erfiðari verkefni en hinir, en umgjörðin er sú sama.

 

Um vefinn

Til að sjá myndina með töflunni skalt þú ýta á  myndina af hendinni sem er alltaf í hægra horninu efst á skjámyndinni

Þannig  tekst þér að hoppa aftur inn í rammskjalið sem þú sást í byrjun. Smelltu síðan með músarhappinum á einhvern þátt sem sýndur er í töflunni og skoðaðu hvað gerist.

Gangi þér vel, s(k)jáumst í vefheimi.

            Tómas Rasmus.